10 algeng byrjendamistök (á íslensku)

Greinar um fiska og umhirðu þeirra

Moderators: Vargur, Andri Pogo

Post Reply
Vargur
Posts: 8605
Joined: 15 Sep 2006, 12:03
Location: Mosfellsbær

10 algeng byrjendamistök (á íslensku)

Post by Vargur »

Þessi samantekt er byggð á minni reynslu í þvi sem ég hef helst heyrt frá fólki sem ég hef rekist á.

Algeng byrjandamistök.

1. Ekki næg vatnsskipti.
Því miður virðast margir halda að ef vatnið er ekki brúnt af drullu þá þurfi ekki að skipta um það. Sannleikurinn er hins vegar sá að úrgangsefni byggjast upp í vatninu og valda veikindum eða dauða hjá fiskunum. Regluleg vatnsskipti eru grunnurinn að góðu fiskabúri og engan vegin bara nóg að bæta vatni í búrið í staðinn fyrir það sem gufar upp.
Í minni búrum (30-80 lítra) er æskilegt að skipta um 30-50% vatnsins á 1-2 vikna fresti miðað við hóflegan fjölda af fiskum.

2. Allt of lítið búr.
Margir byrja með lítil búr og oft gefa foreldrar börnum lítið búr með orðunum "sjáum hvernig þetta gengur og þú færð stærra ef þetta verður í lagi hjá þér", sannleikurinn er sá að lítil búr eru erfiðustu búrin og mestar líkur á að allt gangi á afturfótunum sérstaklega ef settir eru of margir fiskar í búrið. Í litlum búrum eru sveiflur í vatnsgæðum í hámarki og algengt að fiskar drepist eða veikist. Kauptu alltaf eins stórt búr og fjárráð og pláss leyfa enda er hlutfallslega mun minni vinna við stór búr.

3. Of margir fiskar og tegundir sem passa ekki saman.
Þessi mistök eiga oft samleið með fyrstu tveimum mistökunum. Nýliðum langar í alla fiska og hrúga allt of mörgum fiskum saman í búr og afleiðingin er veikindi, dauði og ósamkomulag milli tegunda.
Mundu að þó búrin í búðinni séu full af fiski þá eru það ekki málið varðandi heimabúr, í búðinni eru fiskarnir í skamman tíma, fóðraðir lítið og í umsjá fiskafólks með reynslu.

4. Offóðrun.
Fæstir fiskar kunna sér magamál og éta endalaust, Þó fiskarnir betli mat eða virðist sársvangir er það sjaldnast málið. Gefðu fiskunum þínum 1-2x á dag og einungis það sem þeir ná að éta á 1-2 mínútum þannig ekkert falli á botninn. Fiskum er enginn greiði gerður með ofeldi heldur þvert á móti. Offóðrun veldur því að úrgangsefni byggjast hratt upp í búrinu og fiskar drepast vegna þess sérstaklega í litlum og nýuppsettum búrum. Flestir fiskar þola vel svelti og ekki þarf að hafa áhyggjur þó þeir borði ekki í td yfir helgi ef fjölskyldan fer eitthvað.

5. Stress vegna þess að búrið er "skítugt".
Í nýuppsettum búrum myndast oft þörungur hratt, oft vegna ástæðna sem nefndar eru hér á undan, offóðrun, of margir fiskar osf, þörungiurinn nærist á úrgangsefnum frá fiskunum og einnig vegna of mikillar lýsingar og dagsbirtu, best er að ljósatíminn fari ekki yfir 8-10 klst í nýlegum búrum og alls ekki má skína dagsbirta á búrið.
Þörungurinn er ekki skaðlegur fiskunum en sjaldnast augnayndi, best er að hreinsa þörunginn jafnóðum af glerinu en láta fiska sem nærast á þörung (td. ancistur, Sae) sjá um það sem sest á steina og skraut. Mundu að hófleg fóðrun og ör vatnsskipti eru besta vörnin gegn þörung.
Óþarfi er og oft skaðlegt að fara í einhver meiriháttar þrif eða kaup á efnum til að losna við þörung sem vanalega er hægt að komast fyrir með smá eftirgrenslan eða þolinmæði.

6. Starfsfólki verslana treyst í blindni.
Þó flestar verslanir séu með hæft fólk í vinnu þá eru undantekningar og oft er afleysingafólk eða nýliðar við störf, því miður gefur óreynt fólk oft upplýsingar sem eru rangar eða það hefur misskilið og reynsluleysi þess nær ekki að greina hlutina rétt. Treystu því afgreiðslufólki hóflega og leitaða svara við spurningum sjálfur td. hér á síðunni, öðrum fræðslusíðum um fiska eða bara google.

7. Ofnotkun lyfja og bætiefna.
Þessi mistök fylgja oft því sem rætt er hér að ofan. Sjúkdómar eða slappleiki á fiskum fylgir oft nýuppsettum búrum, sérstaklega hjá byrjendum. Starfsfólk verslana er oft ekki nægilega vel að sér til að greina vandan og bendir oft að óþörfu á lyf eða greinir sjúkdóma ranglega. Sannleikurinn er sá að oft má laga ástand fiskana án lyfja með réttri umhirðu og stundum nægir að skipta um vatn. Oftar en ekki er það sem nýliði telur veikindi tengt einhverjum af þeim þáttum sem taldir eru hér að ofan, td ekki valdar réttar tegundir saman, ónæg vatnsskipti osf.
Leitaðu þvi sjálfur upplýsinga um hvað geti verið að angra fiskana áður en lyfjum er dælt í búrið, sérstaklega ef ekki sjást áberandi blettir eða sár á fiskunum.
Einnig eru fólki oft seld allskyns óþarfa bætiefni sem sjaldnast er þörf á í okkar góða vatn, efni sem fjarlægja klór og þungmálma eru algerlega óþörf hér þó þau séu víða nauðsynleg erlendis, engu að síður selja sumar verslanir fólki þessi efni sem bráðnauðsynleg.

8. Oftrú á hreinsibúnaði.
Iðulega heyrir maður af fólki sem telur sig ekki þurfa að skipta um vatn vegna þess að það sé með svo góða hreinsidælu.
Sannleikurinn er sá að þó dælan fjarlægi sjáanlegan úrgang úr búrinu þá fer hann ekkert heldur brotnar niður í dælunni og mengar vatnið. Regluleg vatnskipti og dæluþrif eru því nauðsynleg í öllum fiskabúrum.

9. Misskilningur í sambandi við kranavatn.
Fjöldinn allur af fólki telur að ekki megi setja vatnið okkar beint í fiskabúr en slíkt er argasti misskilningur. Á flestum stöðum á landinu er óhætt að blanda saman heitu og köldu kranavatni í æskilegt hitastig og setja í fiskabúrið. Alger fásinna er að standa í því að sjóða vatn og í flestum þéttbýliskjörnum er heita vatnið prýðisgott í fiskabúr.

10. Of mikil þrif á búrinu.
Því miður eru margir sem kynna sér ekki eða eru ekki fræddir um við kaup á nýju búri eðlilegan gang í lífríkinu í fiskabúri og margir eiga til að missa sig í hreingerningu á búrum. Aldrei ætti að taka búrið og þrífa það frá a-ö, þe. ekki þrífa búr, möl og dælu á sama tíma og skipta út öllu vatninu. Því miður þekkist það að fólki er ráðlagt að veiða fiskana upp úr smærri búrum og skella svo búrinu í baðkarið og þrífa búrið og allt innvols. Slíkt er auðvitað alger vitleysa því þá er drepin niður öll eðlileg flóra sem hjálpar til við niðurbrot á úrgangsefnum í búrinu og heldur jafnvægi á lífríkinu.
Einungis skal skipta út hluta vatnsins og reyna að þrífa ekki dælu og möl á sama tíma sérstaklega í nýlega uppsettum og minni búrum.

Hafir þú einhverjar spurningar um umhirðu fiska eða fiskabúra skaltu pósta þeim í viðegandi flokk hér á spjallinu.
Post Reply