Nautshjörtu fyrir Discus
Fékk þessa uppskrift hjá Svavari Discusgúrú. Hann reyndar mælir með smá fiski eða rækjum, en þegar ég sá að fiskflökin í frystinum voru með roði þá hætti ég við að hafa fisk með.
Uppskrift
- 1 stk nautshjarta (2kg)
1 bakki af fersku spínati
3 lúkur af haframjöli
2 geirar af hvítlauk
3 msk af þurrfóðri (t.d. Tetra Variety)
3 plötur af matarlími
250ml vatn
Mynd 1. Hráefnið: Hvítlaukur, nautshjarta, haframjöl, spínat, matarlím, þurrfóður.
Mynd 2. Hjartað, sést utanáfitan.
Mynd 3. Hjartað, æðar og sinar
Takið hjartað og skerið alla fitu utan af því. Skerið það síðan í fernt eftir endilöngu (niðurávið m.v. mynd 2), og skerið burt æðar, himnu, sinar, og allt sem er ekki kjöt. Setjið í Matvinnsluvélina og af stað á hæsta styrk.
Mynd 4. Hjartað eftir að búið er að hreinsa alla fitu, sinar, og æðar af.
Mynd 5. Afgangurinn af hjartanu, fer í ruslið
Meðan kjötið er að hakkast, skolið spínatið, takið utan af hvítlauknum og raspið hann niður. Þegar kjötið er orðið að algjöru mauki, bæta við spínati, hvítlauk, þurrfóðri, og haframjöli. Setja matvinnsluvélina aftur á hæsta styrk. Ágætis tími til að ganga frá og þurrka af bekknum meðan sjatnar í vélinni og allt fer saman í mauk.
Mynd 6. Hjartað eftir hökkun
Þegar allt er orðið að mauki, færið kjötið úr matvinnsluvélinni í stóra skál. Setjið vatnið í pott og brjótið matarlímsplöturnar út í. Setjið á hellu og hækkið undir, hrærið í þangað til plöturnar eru bráðnaðar. Hellið matarlíminu út í kjötblönduna í litlum skömmtum og hrærið saman við með sleif.
Þegar allt er klárt er gott að taka litla nestispoka og setja tvær matskeiðar af kjöti í einu í poka og fletja út með kökukefli eða bara puttunum í eins þunnar plötur og hægt er. Gerið einfalt brot á pokann og notið límband eftir brotinu til að loka pokanum svo það leki ekki úr honum. Staflið plötunum upp og setjið að lokum í frysti.
Mynd 7. Verið að pakka í plastpoka
Mynd 8. Frosinn poki. Mixið er mjög þunnt
Þegar gefa á er hægt að taka plöturnar og brjóta af þægilegan bút.