Afrískar sikliður - Pseudotropheus Demasoni

Greinar um fiska og umhirðu þeirra

Moderators: Vargur, Andri Pogo

Post Reply
Vargur
Posts: 8605
Joined: 15 Sep 2006, 12:03
Location: Mosfellsbær

Afrískar sikliður - Pseudotropheus Demasoni

Post by Vargur » 01 Nov 2007, 23:54

Pseudotropheus Demasoni

P. Demasoni eru munnklekjarar úr Malawí vatni í Afríku.
Bæði kynin hafa sama fallega bláa lit með lóðréttum svörtum röndum. Kynin þekkjast helst sundur á því að kvenfiskarnir eru yfirleitt örlítið minni en karlarnir en fullvaxnir fiskar verða sjaldan stærri en 5-7cm þó vissulega séu dæmi um stærri fiska.

Í náttúrunni finnast Demasoni í grýttu umhverfi á tiltölulega litlu dýpi, þar nærast þeir á þörungum sem þeir skrapa af steinum.
Sem búrfiskar þurfa þeir mikið grænfóður, þeir eiga það til að narta í gróður í búrinu, þeir kroppa þörung af steinum og möl og bráðfyndið er að sjá þá velta smásteinum til að kroppa af þeim þörung. Gúrka er fyrir þeim mesti veislukostur og þeir hreinlega hakka hana í sig. Þeir sýna stærri fiskum enga virðingu í keppni um fóður og er kostulegt að fylgjast með þeim stela fóðri hreinlega útúr öðrum fiskum og þjóta með það burt.
Ákjósanlegt hitastig er 25-27 gráður.

Image

Sem búrfiska er best að hafa þá í hóp ekki færri en 8-10 fiska því þeir geta verið mjög grimmir á eigin tegund, þeir ráðast einnig hiklaust á aðra fiska í svipaðri stærð og sérstaklega þá sem minni eru, því þarf að gæta að búrfélagar hafi næga felustaði og búrið sé í stærri kantinum.
Demasoni eigna sér ekki beinlínis svæði eins og aðrir munnklekjarar en hika þó ekki við að verja hrygningastaði fyrir stærri fiskum. Mikilvægt er að hafa mikið af hellum og smugum fyrir þá. Best er að hrúga upp nokkrum hnefastórum steinum með þröngum glufum á milli steinana. Þessir fiskar eru stórskemmtilegir búrfiskar og algerir skemmtikraftar þó varhugaverðir séu. Þeir virðast forvitnir og fremur gáfaðir og eru fljótir að aðlagast breyttum aðstæðum sérstaklega í stærri hóp og það er aldrei dauð stund í kringum þá.

Image

Post Reply